Bók vikunnar er stríðsárarómantík

 

Bók vikunnar er falleg rómantísk skáldsaga eftir þýska rithöfundinn Manfred Hausmann (1898-1986). Sögusviðið er á Færeyjum og Íslandi en bókin kom út í Bremen 1937. Hún heitir á þýsku Abschied von der Jugend sem gæti útlagst sem Kveðja frá ungmenni. Bókina prýða fallegar myndir eftir Walter Muller og hún er prentuð með gotnesku letri. (Það var leyfilegt þá en nokkrum árum seinna bannað sem gyðinglegt letur).

Höfundurinn Manfred Hausmann var afkastamikill rithöfundur og spannar rithöfundaferill hans nær 70 ár eða frá 1922 fram til æviloka. Svo virðist raunar að yngstu verk hans hafi verið gefin út nokkrum árume eftir dauða rithöfundarins. Hausmann barðist í báðum heimsstyrjöldunum og lést í Bremen 1986. 1998 kom út frímerki til heiðurs höfundinum. Eintakið sem Sunnlenska bókakaffið er með til sölu er áritað fallegri jólakveðju frá Steingerði til pabba á jólum 1938.