Krúttlegur sýslumaður

Það er erfitt að flokka bókina Sýslumaðurinn sem sá álfa. Hún er á kápu kynnt sem glæpasaga en fellur ekki inn í venjulegan ramma formúlubókmennta. Á vondri íslensku mætti lýsa henni sem absúrd og naív nóvellu sem útleggst að þetta er löng smásaga, óraunsæ og bernsk. En ef einhver telur að þetta sé falleinkun þá skjátlast þeim hinum sama.

Frásögnin er skemmtileg og fyndin en um leið svoldið forn. Kannski á það vel við um sögu sem skrifuð er á dánarbeði. Höfundurinn Ernir Kristján Snorrason læknir og rithöfundur (1944-2012) skilaði þessari bók sem kveðju til samferðamanna og hún kom úr prentsmiðju á útfarardegi höfundarins.

Fyrir okkur Sunnlendinga er vitaskuld gaman að sögusviðið er hér austanfjalls og sýslumaðurinn sem ríkir í Rangárþingi heitir Björn. Æðsti maður í stjórnsýslunni heitir Möller og fleiri nöfn eru ögn kunnugleg. Stíllinn flakkar milli Jóns Mýrdals og Lasarusar frá Tormes. Sunnlenska bókakaffið mælir með þessum einstaka og krúttlega sýslumanni og þá ekki síður óborganlegri ástkonu hans.