Uppboðsskilmálar

Uppboðsskilmálar fyrir uppboð bóka og annarra lausamuna hjá hlutafélaginu Sunnan 4 ehf (570292-2269) sem rekur Netbokabud.is, Bókakaffið á Selfossi og Bókaútgáfuna Sæmund.

1. gr.: Starfsmenn

Uppboðshaldari Sunnan 4 ehf er Bjarni Harðarson bóksali. Við uppboð félagsins eru auk þess eftirtaldir starfsmenn: Regluvörður sem úrskurðar í lagalegum vafamálum, ritari sem skráir hæstu boð og aðstoðarmaður uppboðshaldara sem jafnframt sýnir gripina.

2. gr.: Uppboðsskrá

Fyrir hvert uppboð skal liggja frammi listi yfir þá gripi sem til stendur að bjóða upp. Takist ekki að ljúka uppboði á öllum þeim gripum sem eru á listanum er boðað til framhaldsuppboðs.

3. gr. Ástand gripa og réttur kaupanda

Bækur og eftir atvikum aðrir munir eru seld í því ástandi sem þau eru í þegar þau eru slegin hæstbjóðanda. Kaupandi hefur rétt á að kynna sér ástand muna á forsýningu sem haldin er áður en uppboð hefst sem og á meðan á uppboði stendur eftir því sem því er viðkomið. Gallar sem kunna að vera á seldu verki eiga því að vera bjóðanda kunnir við kaupin og hvorki á ábyrgð uppboðshaldara né seljanda. Þar sem flestir þeir gripir sem boðnir eru upp á uppboðum félagsins eru gamlir og notaðir eru bjóðendur hvattir til að kynna sér ástand þeirra gripa sem þeir ætla að bjóða upp.

4. gr. Bækur skulu vera blaðheilar nema annað sé tekið fram

Þó skal gengið út frá því að bækur séu blaðheilar, þ.e. að í þeim séu allar þær blaðsíður sem tilheyrðu bók þegar hún fyrst kom á markað - nema uppboðshaldari taki sérstaklega fram við uppboðið að blaðsíður vanti. Nú kemur í ljós eftir að bók hefur verið slegin hæstbjóðanda að í hana vantar blaðsíður og uppboðshaldari hefur ekki getið þess við uppboð þá er kaupanda heimilt að hafna kaupum. Hafi greiðsla farið fram og uppboðsþingi hefur ekki verið slitið getur kaupandi í tilviki sem þessu fengið endurgreiðslu enda skili hann bókinni í því ástandi sem hann tók við henni. Umræddur réttur fellur niður þá þegar viðkomandi uppboðsþingi hefur verið slitið.

5. gr.: Vafamál

Komi upp efasemdir um hver hafi átt hæsta boð þegar gripur er boðinn upp, eða fleiri en einn reynast hafa verið með hæsta boð, ákveður regluvörður við uppboð hvort umrædd bók eða gripur verður boðinn upp á ný.

6. gr.: Skilmálar við þriðja aðila

Almennt eru gripir sem félagið býður upp í eigu félagsins. Taki uppboðshaldari að sér að bjóða upp gripi í eigu annarra en Sunnan 4 ehf gilda um það sérstakir samningar sem viðkomandi eigandi gripa gerir við uppboðshaldara. Þeir samningar eru bjóðendum á uppboðsþingi óviðkomandi og allar greiðslur fara um sjóðvél uppboðshaldara sem gerir skattalega grein fyrir öllum tekjum og gjöldum.

7. gr.: Endanlegt verð

Kaupandi fær uppboðsgrip afhentan fyrir þá upphæð sem hann bauð í gripinn og skráð er í uppboðsbók. Engin aukagjöld eru lögð ofaná þá upphæð en af söluverði stendur uppboðshaldari skil á sköttum og skyldum en á þar um engar kröfur á kaupanda. Uppboðsverð skal staðgreitt af kaupanda en heimilt er að greiða með greiðslukorti. Geti kaupandi ekki innt umrædda upphæð af hendi getur uppboðshaldari veitt greiðslufrest. Telji uppboðshaldari það ekki skynsamlegt er honum að heimilt að bjóða þeim sem næsthæstu boð áttu að ganga inn í kaupin eða að bjóða gripinn upp að nýju og skal við ákvörðun þess haft samráð við regluvörð uppboðs.

8. gr.: Fyrirframboð

Hægt er að gera fyrirframboð í verkin og skal þeim skilað til uppboðshaldara um netfangið bokakaffid@bokakaffid.is eða til starfsmanna uppboðs á uppboðsstað. Einnig er hægt að bjóða í gegnum síma 897 3374. Uppboðshaldari ber ekki ábyrgð á að boð í gegnum rafpóst eða síma berist í tæka tíð.

9. gr.: Lágmarkshækkun boða

Verð uppboðsgripa hlaupa á heilum þúsundum króna og sama á við um hækkun boða. Þegar um er að ræða mjög ódýra gripi er uppboðshalda heimilt að lækka þá tölu þannig að bjóðendum sé til dæmis heimilt að hækka verð um 500 kr. eða 100 kr.

10. gr.: Upphaf og slit uppboðsþings

Uppboðshaldari tilkynnir um upphaf og slit uppboðsþing. Áður en uppboðsþing er formlega sett er opið hús á uppboðsstað þar sem starfsmenn uppboðshaldara sýna gestum uppboðsgripi og heimila eftir því sem aðstæður leyfa að gestir handleiki gripina. Eftir að gripir hafa verið boðnir upp fer fram uppgjör uppboðsgesta og þá því er lokið slítur uppboðshaldari uppboði.

(Gert á Selfossi 17. apríl 2017)